Rýming vegna mengunar

Byrjað er að rýma bæinn Kolontar í Ungverjalandi eftir að í ljós kom að eitrunin var enn meiri frá eiturefnaleðjunni sem lak úr geymsluþró súrálsverksmiðju í bænum Ajka á mánudag. Kolontar er einn þeirra bæja sem varð verst út úr mengunarslysinu.

Segja stjórnvöld í Ungverjalandi að skemmdin sem uppgötvuð var á norðurvegg geymsluþróarinnar sé ekki mjög mikil en ekki borgi sig að taka neina áhættu. Því er öllum 800 íbúum bæjarins gert að yfirgefa heimili sín. Að minnsta kosti sjö eru látnir eftir mengunarslysið og um 150 hafa þurft að leita læknishjálpar.

Áætlað er að um 700.000 til 1,1 milljón rúmmetrar af rauðri leðju hafi flætt úr þrónni yfir stórt svæði í grenndinni, m.a. tugi bæja og þorpa.

Leðjan myndast þegar súrál er unnið úr báxíti. Málmgrýtið er þá tekið úr jörðinni og hreinsað með vítissóda. Úr því verður til súrál, sem er unnið frekar, og úrgangur, þ.e. óhreinindi í föstu formi, þungmálmar og efni sem notuð eru við vinnsluna, að sögn fréttavefjar BBC.

Um það bil 40-45% úrgangsins eru járnoxíð sem gefur leðjunni rauðan lit. Um 10-15% eru áloxíð, önnur 10-15% kísiloxíð og í leðjunni er minna magn af brenndu kalki, títandíoxíði og natrínoxíði, að sögn fyrirtækisins sem rekur súrálsverksmiðjuna.

Auk þess sem eiturefnin geta valdið brunasárum geta þau skemmt lungun og meltingarfæri ef þau berast inn í líkamann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert