Hengdur fyrir djöfullega hegðun

Íranskur maður var hengdur í Ahvaz, í suðvesturhluta landsins. Hann var sagður hafa gerst sekur um „djöfullega“ og „ósiðlega“ hegðun. Nafn mannsins hefur ekki verið gefið upp, en hann var aflífaður í fangelsi á laugardaginn.

Með þessu er fjöldi aftaka í Íran, það sem af er ári, kominn í 137. Í það minnsta 270 manns voru hengdir í landinu á síðasta ári.

Íran er í hópi þeirra landa sem tekur flesta af lífi á ári hverju, auk Kínverja, Sádi-Arabíu og Bandaríkjanna.

Yfirvöld í Teheran segja dauðarefsinguna nauðsynlega til að tryggja öryggi almenings, og til hennar sé aðeins gripið eftir ítarlega meðferð í dómskerfinu.

Morð, nauðgun, vopnað rán, eiturlyfjasala og hórdómur eru á meðal þeirra brota sem refsað er fyrir með aftöku í Íran.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert