Skólagjöld hækka í Bretlandi

Frá Oxford-háskóla.
Frá Oxford-háskóla.

Háskólar í Englandi munu hafa til að allt að þrefalda skólagjöld sín samkvæmt tillögum sem ríkisstjórnin hefur sett fram sem lið í niðurskurðaraðgerðum. Við breytinguna færist kennslukostnaður frá ríkinu yfir á nemendur.

Þakið á skólagjöldum í enskum háskólum er sem stendur 3,290 pund á ári, 585 þúsund íslenskar krónur en frá og með árinu 2012 geta háskólar hækkað gjöldin upp í allt að 9,000 pund á ári, eða 1,6 milljónir íslenskra króna. Lægra stig þaksins verða 6,000 pund og ætli háskólar að setja hærri gjöld en það, eða fullnýta 9,000 punda þakið, ber þeim að uppfylla strangari reglur um aðgengi fyrir efnaminni nemendur.  

David Willets, menntamálaráðherra Bretlands, segir að um sé að ræða framsæknar endurbætur á kerfinu sem muni fjölga valmöguleikum þeirra nemenda sem hafa metnað fyrir kennslu af hæstu gæðum. Ríkisstjórnin áætlar að með því að færa kostnaðinn yfir á nemendur megi spara í útgjöldum til háskóla um 40%. Þingmaður Verkamannaflokksins, Gareth Thomas, segir að í hækkuninni felist „harmleikur fyrir heila kynslóð af ungu fólki". Hagsmunasamtök stúdenta í Bretlandi segja að breytingarnar, sem fela í sér tæplega þrefalda hækkun skólagjald, séu hneyksli.

Viðbrögð háskólanna sjálfra eru blendin að sögn BBC. Talsmenn stærstu skólanna segja að um sé að ræða „lífsnauðsynlega blóðgjöf fyrir skólakerfið" sem sé eina leiðin fyrir Bretland til að viðhalda samkeppnisstöðu sinni á æðri menntastigum á heimsvísu. Talsmenn yngri og smærri háskóla vara hinsvegar við því að háskólar muni sjá sig knúna til að fullnýta þakið og krefja nemendur um 9,000 pund á ári. Ástæða sé til að óttast að færri muni sækja sér háskólamenntun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert