50% líkur á hruni evrunnar

Frá kauphöllinni í Frankfurt.
Frá kauphöllinni í Frankfurt. Reuters

Helmingslíkur eru á hruni evrunnar á næstu sex mánuðum, að mati Sam Bowman, sérfræðings við Adam Smith-stofnunina í Lundúnum. Bowman, sem á ættir að rekja til Írlands, telur að Írar eigi að kasta evrunni. Þá gefur hann lítið fyrir þau rök að Ísland væri í betri stöðu með evru.

Bowman fullyrðir að írska ríkisstjórnin hafi verið undir miklum þrýstingi frá Evrópusambandinu að taka við lánum til að halda bankakerfinu á floti. Hann segir aðspurður útlit fyrir háa skatta í Evrópu á næsta áratug, enda verði skattgreiðendum sendur reikningurinn fyrir neyðaraðstoð til handa Grikkjum, Írum og nær örugglega Portúgölum. Hér sé á ferð kostnaður sem flestir Írar kæri sig ekki um að þurfa að standa undir en írska stjórnin fallist engu að síður á að kröfu ESB og bankastofnana. 

Þá sé það til marks um úr hversu miklum tengslum írska stjórnmálastéttin sé við írskan almenning að hún hafi tekið Evrópusambandið fram yfir þjóð sín áður en greint var frá neyðaráætluninni, með því að ljúga að kjósendum sínum um að aðstoðin yrði ekki þegin vikuna áður en greint var frá því.

Sniðið að þörfum stóru Mið-Evrópuríkjanna

„Vandamálið var að vaxtastigið var ákveðið með hagkerfi Frakklands og Þýskalands í huga en ekki með hliðsjón af írska hagkerfinu. Risastórri fasteignabólu var leyft að verða til á Írlandi sem þýddi að allt írska hagkerfið var endurskipulagt í kringum húsnæðismarkaðinn [...]

Aðalatriðið er að eina leiðin fyrir Íra til að komast út úr þessu hvað gjaldmiðilsmál snertir er að yfirgefa evruna og taka upp írskt pund á ný, þannig að alþjóðlegir gjaldeyrismarkaðir geti endurmetið gjaldmiðilinn svo Írland geti orðið samkeppnishæft á heimsmarkaði á ný.

Launalækkanir og aðrar skerðingar sem þurfa að eiga sér stað á Írlandi yrðu þá ekki eins sársaukafullar og raun ber vitni því við erum nú fastir í spennitreyju pólitísks kerfis sem mun koma írskum launþegum og almenningi illa. Eðlileg gengislækkun sem myndi koma markaðnum til góða getur ekki átt sér stað,“ segir Bowman og á við evruna er hann ræðir um pólitískt kerfi. Þar fari gjaldmiðill sem þjóni pólitískum tilgangi fremur en efnahagslegum.

Tekur ESB fram yfir írskan almenning

„Írska ríkisstjórnin hefur meiri áhuga á að koma til móts við óskir Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins en að uppfylla þarfir írsks almennings. Ég held að breið gjá hafi myndast á milli stjórnmálaelítunnar á Írlandi til vinstri og hægri, í stjórn og stjórnarandstöðu, og almennings sem hefur leitt til þess að stefna ESB er tekin fram fyrir írskan almenning,“ segir Bowman og ítrekar þá skoðun sína að írska stjórnin hafi vísvitandi logið að almenningi undanfarna viku með því að halda því fram að fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins væru aðeins til ráðgjafar, þótt allir vissu betur.

Ísland væri verr statt með evruna

- Haustið 2008, þegar íslenska fjármálakerfið riðaði til falls, héldu talsmenn Samfylkingarinnar, verkamannaflokkur Íslands, því fram að Ísland hefði verið í allt annarri og betri stöðu ef hagkerfið hefði notast við evru en ekki krónu. Hvernig bregstu við þessari greiningu?

„Reynsla Íra sýnir að evran gerir illt verra, ekki aðeins fyrir írskan almenning heldur einnig fyrir ríki Evrópu. Írska veikin dreifist nú um Evrópu. Ef Írland hefði farið leið greiðsluþrots - sem ég tel að landið eigi að gera - hefði það leitt til mun veikari eftirskjálfta á evrusvæðinu en við horfum nú fram á.

Ég held að evran hafi frá upphafi verið pólitískt verkefni í því augnamiði að koma á  sambandsríki Evrópu. Sú röksemdafærsla að evran feli í sér efnahagslegan ávinning er eins og að halda því fram að vatn renni upp í móti þegar við viljum. Það gengur auðvitað ekki upp. Reynsla Íra hefur grafið undan þeim rökum að evran hefði skýlt Íslandi. Evran hefur þvert á móti gert stöðuna á Írlandi mun verri.“

Miklar líkur á hruni evrunnar 

- Þú minntist á það áðan að þú teldir miklar líkur á að Portúgal þyrfti á neyðaraðstoð að halda og svo hugsanlega Spánn, Frakkland og Ítalía í kjölfarið. Hvaða líkur telurðu á hruni evrusvæðisins? 

„Ég myndi segja að það væru helmingslíkur. Ég sé ekki fyrir mér að evrusvæðið verði við lýði eftir áratug. Ég tel að það sé næstum öruggt að það lifi ekki af næstu tíu árin. Hvort það lifi næstu sex mánuðina af held ég að sé stór spurning. Ég tel að það væru helmingslíkur.“

- Er staðan sem komin er upp án fordæmis frá kreppunni miklu árið 1929?

„Já. Hún er það. Þetta á sér engin fordæmi [...] Evruríkin eru nú svo samtengd vegna evrusamstarfsins. Það á sér engin fordæmi.“

Sam Bowman
Sam Bowman
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert