Segir hlutleysisstefnu Svíþjóðar vera lygi

Fredrik Reinfeldt var „betur til þess fallinn að vinna með …
Fredrik Reinfeldt var „betur til þess fallinn að vinna með Bandaríkjamönnum“ en Göran Persson reuters

Sendiherra Bandaríkjanna í Stokkhólmi telur að sænsk stjórnvöld hafi sagt ósatt um hversu náin tengsl Svíþjóðar séu við Atlantshafsbandalagið (NATO) í varnarmálum.

Svenska Dagbladet skýrði frá þessu í gær og sagði að þetta kæmi fram í einu af um hundrað skeytum sem blaðið hefði fengið fyrir tilstilli uppljóstrunarvefjarins WikiLeaks.

Svenska Dagbladet segir að bandaríski sendiherrann Michael Wood hafi sent skeytið skömmu áður en Fredrik Reinfeldt fór í fyrstu heimsókn sína til Washington sem forsætisráðherra Svíþjóðar í maí 2007 til að ræða við George W. Bush, þáverandi forseta. Í skeytinu komi meðal annars fram að sendiherrann telji Reinfeldt „betur til þess fallinn að vinna með Bandaríkjamönnum en forveri hans“, þ.e. Göran Persson.

Í skeytinu tekur Wood fram að Svíþjóð eigi ekki aðild að Atlantshafsbandalaginu en leggur áherslu á að landið sé í raun „pragmatískt og sterkt“ samstarfsríki NATO. „Opinber stefna Svíþjóðar er að landið sé utan hernaðarbandalaga á friðartímum og hlutlaust þegar stríð geisar. Virk þátttaka landsins í samstarfi NATO í þágu friðar og forystuhlutverk landsins í 1.500 manna Norrænu bardagasveitinni á vegum Evrópusambandsins sýnir þó að opinbera stefnan er lygi.“ Sendiherrann skírskotaði til þátttöku Svíþjóðar í Norrænu bardagasveitinni (Nordic Battle Group) með Finnlandi, Írlandi og Eistlandi, auk Noregs sem tekur þátt í samstarfinu þótt landið eigi ekki aðild að Evrópusambandinu.


Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert