Svissneskt fyrirtæki, Wikileaks og íslensk orka

Julian Assange stofnandi WikiLeaks á blaðamannafundi í Genf
Julian Assange stofnandi WikiLeaks á blaðamannafundi í Genf Reuters

Svissneskt fyrirtæki, sem starfar fyrir WikiLeaks, fékk verkefnið vegna starfsemi sinnar á Íslandi. Þetta kemur fram í grein í svissneska blaðinu Aargauer Zeitung.

Svissneska fyrirtækið Datacell sér um stóran hluta utanumhalds stafrænna fjármála WikiLeaks, þar á meðal vefsíðu þar sem stuðningsmenn samtakanna geta styrkt starfsemi þeirra í gegnum svokallaða greiðslugátt.

Í blaðinu Basler Zeitung er haft eftir Andreasi Fink hjá Datacell að samningurinn sé mikilvægur fyrir fyrirtækið, en ekki síður fyrir WikiLeaks, enda sé reksturinn dýr, meðal annars vegna ferðalaga Julian Assange, stofnanda samtakanna.

Fink kveðst styðja starfsemi WikiLeaks, en samningurinn snúist hins vegar aðeins um viðskipti. Fink segir að ástæðan fyrir því að Datacenter fékk verkefnið sé ekki síst vegna þess að það rekur reiknimiðstöð á Íslandi þar sem WikiLeaks hafi einnig aðstöðu. Ástæðan sé sú að rafmagnskostnaður á Íslandi sé mjög lágur. Hvergi annars staðar fáist kílówattstundin á jafn hagstæðu verði, að sögn Finks.

Tekið er fram að Fink hafi aðeins hitt Assange einu sinni og það var þegar samningurinn var undirritaður. Hann viti ekki hvar Assange sé nú niðurkominn.

Í frétt Aargauer Zeitung kemur einnig fram að Assange hafi rætt við ýmsa framámenn í Sviss, meðal annars um það hvernig sækja ætti um pólitískt hæli þar í landi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert