Níu stiga jarðskjálfti

Veðurstofa Japans segir að jarðskjálftinn sem reið yfir landið á föstudag hafi verið 9 stig. Fram að þessu hefur verið talið að skjálftinn hafi verið 8,9 stig en nú hafa upplýsingar um styrk hans verið uppfærðar.

Björgunaraðgerðir í Japan eru í fullum gangi og eru menn enn að átta sig á afleiðingum skjálftans, sem er sá öflugasti sem hefur orðið í landinu frá því mælingar hófust og einn sá öflugasti sem hefur mælst í heiminum.

Takashi Yokota, forstöðumaður veðurstofunnar, segir að eftir að menn skoðuðu afleiðingar skjálftans betur var ákveðið að uppfæra upplýsingar. 

„Við höfum komist að því að risaskjálftinn varð á þremur stöðum samtímis,“ segir hann. 

Upptök hans voru norðaustur af Japan. Mikil flóðbylgja fylgdi í kjölfarið með tilheyrandi eyðileggingu. Heilu hverfin lögðust í rúst og hreif bylgjan með sér bíla, skip og heilu húsin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert