ESB stóð ekki undir markmiðum þróunaraðstoðar

Verkakonur safna sykurreir í Nígeríu.
Verkakonur safna sykurreir í Nígeríu. Reuters

Ríki Evrópusambandsins vörðu samtals 53,8 milljörðum evra í þróunarhjálp á árinu 2010, að sögn framkvæmdastjórnar sambandsins. ESB er þar með stærsti veitandi opinberrar þróunaraðstoðar í heiminum og rúmlega helmingur alls þróunarfés kemur frá Evrópuríkjum.

Þrátt fyrir þetta stóð ESB ekki undir þeim markmiðum sem sett voru í þróunarmálum fyrir árið 2010, því ætlunin var að verja 0,56% af vergum þjóðartekjum sambandsins. Milljarðarnir 53,8 eru hinsvegar aðeins 0,43% af vergum þjóðartekjum.

Hjálparsamtöki Oxfam gagnrýna framkvæmdastjórn ESB fyrir að bregðast heitum sínum og benda á að þessi vangeta Evrópuríkja þýði að fátækustu ríki heims hafi verið snuðuð um 14,5 milljarða evra aðstoð sem hefði getað bjargað mannslífum.

Sem dæmi nefna Oxfam að sú upphæð hefði getað greitt fyrir laun tæplega 800.000 ljósmæðra í Afríkuríkjum sunnan Sahara, þar sem barnsfæðing er helsta dánarorsök kvenna og hvergi í heiminum deyja fleiri konur af barnsförum en þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert