Segist hafa fundið krossfestingarnaglana

Kvikmyndagerðarmaðurinn Simcha Jacobovici með annan af nöglunum sem hann telur …
Kvikmyndagerðarmaðurinn Simcha Jacobovici með annan af nöglunum sem hann telur hafa verið notaða við krossfestingu Jesú. Reuters

Uppi eru kenningar um að tveir rómverskir naglar, sem fundust í gröf prestsins Kaífas, sem sveik Jesús í hendur Rómverja, hafi verið notaðir við krossfestingu Jesú.

Ísraelski kvikmyndagerðarmaðurinn  Simcha Jacobovici, sem vinnur að gerð heimildamyndar um naglana, segir ýmislegt benda til þessa.

Naglarnir, sem eru um átta sentímetra langir, fundust fyrir 20 árum í gröf, sem talin er vera legustaður Kaífasar.

Jacobovici sýndi fréttamönnum naglana í dag, þar sem hann kynnti heimildamyndaflokk sinn, sem sýndur verður víða um heim frá og með miðjum maí.

Annar naglinn fannst inni í einni líkkistunni í grafhýsinu, hinn lá á gólfinu.

Lengd naglanna og það að þeir skuli vera beygðir í annan endann þykir benda til þess að þeir hafi verið notaðir við krossfestingu. Og þar sem ekki er vitað til þess að Kaífas hafi haft með neina aðra krossfestingu að gera, þá hljóti þetta að vera naglarnir sem Jesús var krossfestur með, að mati Jacobovici.

Spurður að því hvers vegna Kaífas hefði átt að taka naglana með sér í gröfina, sagði  Jacobovici að það gæti verið vegna samviskubits vegna hlutdeildar hans í dauða Jesús.

Gabi Barkai, sem er prófessor í fornleifafræði við háskólann í Tel Aviv í Ísral segist geta staðfest að naglarnir séu frá 1. öld eftir Krist, en ekki sé hægt að staðhæfa meira um þá. Spurður að því hvort mögulegt væri að þetta væru naglarnir sem Jesús var krossfestur með sagði hann að það væri mögulegt.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert