Skilorðsbundinn dómur fyrir að kveikja í manni

Rajini Narayan
Rajini Narayan

Dómari í Ástralíu ákvað í dag að skilorðsbinda 6 ára fangelsisdóm, sem kona hlaut á síðasta ári fyrir manndráp. Konan var fundin sek um að hafa orðið eiginmanni sínum að bana með því að kveikja í manninum, sem lést síðar af sárum sínum.

Konan heitir Rajini Narayan og er 46 ára. Hún var dæmd fyrir manndráp í október 2010. Hún sagði fyrir dómi á síðasta ári, að hún hefði grunað manninn um framhjáhald og ætlaði fyrst að kveikja í kynfærum hans til að  „hreinsa" þau. 

Rajini Narayan sagði við réttarhöldin að maður hennar hefði þá vaknað   og kallað hana feita og heimska tík. Hún hafi þá skipt um skoðun og hellt bensíninu yfir bak hans og kveikt í.

„Hann var hetjan mín, maðurinn í mínu lífi, ást lífs míns," sagði Rajini við réttarhöldin.„Ég ætlaði að hreinsa kynfæri hans, auðkenna hann þar og hann yrði með mér áfram. Hann yrði minn."

Justin Sulan, sem dæmdi í málinu, sagði að Rajini hefði þjáðst nóg. Hjónin voru gift í tvo áratugi og á þeim tíma þurfti hún að þola margvíslegt ofbeldi af hendi eiginmanns síns. „Í fyrsta skipti á ævinni stóðstu gegn eiginmanni þínum, sem hafði beitt þig ofbeldi í tuttugu ár,“ sagði Sulan við Rajini.

Refsingu hennar var frestað, en það er ekki algengt í áströlsku réttarfari. Hún þarf að vera undir eftirliti yfirvalda í tvö ár og leita sér ráðgjafar.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert