Norðmenn vilja ekki staðfesta árás

Grete Faremo, varnarmálaráðherra Noregs.
Grete Faremo, varnarmálaráðherra Noregs.

Bandarísk hernaðaryfirvöld hrósa Norðmönnum fyrir að hafa lagt samskiptamiðstöð Gaddafis í rúst með loftárásum.

Varnarmálaráðherra Noregs,  Grete Faremo, vill aftur á móti ekki staðfesta að norskar herþotur hafi átt hlut að máli.

Þetta kemur fram á vefsíðu norska dagblaðsins Aftenposten. Þar segir Faremo að hún vilji ekki ræða þátttöku Norðmanna í hernaðaraðgerðunum vegna þess að hún líti svo á að um sameiginlega aðgerð NATO ríkjanna sé að ræða.

„Við viljum vernda flugmenn okkar og viljum ekki tengja einstakar flugvélar eða flugmenn við tiltekin verkefni. Það er NATO sem velur skotmörkin, ekki norski herinn,“ sagði Faremo í samtali við Aftenposten.

Samkvæmt fréttum á bandarísku sjónvarpsstöðinni NBC skutu tvær norskar F-16 herþotur á heimili Gaddafis í Trípólí, en samkvæmt NATO var ætlunin að skjóta á samskipta- og stjórnstöð Gaddafis.

Danir taka einnig þátt í hernaðaraðgerðum í Líbíu og eru þar með sex herþotur. Danska varnarmálaráðuneytið sendir út tilkynningu daglega um hvaða verkefnum dönsku herþoturnar hafa sinnt daginn áður. Þar kemur ekki fram neitt, sem hægt er að tengja við einstaka flugmenn. Þetta er gert í þeim tilgangi að Danir eigi hægara um vik að átta sig á þeim verkefnum sem herinn er að starfa að.

Spurð að því hvers vegna Norðmenn geti ekki haft sama háttinn á svaraði Faremo: „Við tjáum okkur ekki um stefnu annarra þjóða.“



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert