Fimmta hver kona áreitt í norska hernum

Merki norska hersins.
Merki norska hersins.

Ný rannsókn sýnir að fimmta hver kona sem gegnir herþjónustu í Noregi verður fyrir kynferðislegri áreitni innan hersins. Þetta er aukning frá fyrri rannsóknum.

Í heildina segja 5,3% norskra hermanna að þeir hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni. En kynjahlutföllin eru afar ólík; 20,3% kvenkyns hermanna segjast hafa orðið fyrir slíkri áreitni, en 2,9% karlanna.

Hernaðaryfirvöld í Noregi hafa undanfarin ár leitað allra leiða til að taka á þessu. Áreitnin spyr ekki um stöðu, því háttsettar konur í hernum segjast einnig hafa þurft að þola hana.

„Þetta er algerlega óásættanlegt,“ segir varaherforingi norska hersins, Jan Eirik Finseth í samtali við vefsíðu norska dagblaðsins Aftenposten. „Við höfum enga þolinmæði gagnvart áreitni og einelti.“

Finseth segir að nú fari í gang átak til að bæta ástandið. Í því mun meðal annars felast fræðsla um almennar samskiptareglur og stjórnun og stuðningur við þolendur áreitni verður aukinn. Einnig verða boðleiðir endurbættar þannig að þolendurnir eigi auðveldara með að koma kvörtunum á framfæri.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert