Segir sex milljónir láta lífið í ár vegna reykinga

mbl.is / Ásdís Ásgeirsdóttir

Nærri sex milljónir manna munu láta lífið á þessu ári vegna reykinga samkvæmt tilkynningu sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin sendi frá sér í dag. Þar á meðal um 600 þúsund manns sem ekki reykja sjálfir. 

Stofnunin segir að ríkisstjórnir ríkja heimsins séu ekki að gera nægjanlega mikið til þess að draga úr reykingum og hvetja fólk til þess að gefa þær upp á bátinn. Þá kemur fram í tilkynningunni að árið 2030 kunni árleg dauðsföll af völdum reykinga að vera orðin 8 milljónir.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur hvatt ríkisstjórnir til þess að staðfesta og framfylgja sáttmála hennar um að stemma stigum við reykingum og varað við því að ef fram fari sem horfi kunni milljarður manna að látast vegna reykinga á þessari öld.

Til þessa hafa 172 ríki auk Evrópusambandsins samþykkt sáttmálann sem kom til sögunnar árið 2005 og skyldar ríkisstjórnir til þess að draga úr reykingum innan ríkja sinna, draga úr hættunni á óbeinum reykingum og stemma stigum við auglýsingum á tóbaki.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert