Ráðamenn lofa gríska þingið

Evrópskir ráðamenn hafa keppst við að lofa gríska þingið sem í dag samþykkti miklar aðhaldsaðgerðir til að koma í veg fyrir greiðslufall gríska ríkisins.

„Með þessari áætlun er Grikkland að staðfesta skuldbindingu sína um að taka efnahag sinn og útgjöld til gagngerrar endurskoðunnar. Nú er leiðin greið að fimmta lánahluta evru-ríkjanna og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins,“ sagði Jean-Claude Juncker, yfirmaður efnahagsmálaumræðu evru-ríkjanna og forsætisráðherra Lúxemborgar í dag.

Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og Herman Van Rompuy, forseti ESB, sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu þar sem þeir brugðust bæði við samþykkt gríska þingsins í dag en einnig væntanlegri atkvæðagreiðslu á morgun.

„Grikkland hefur stigið mikilvægt skref á vegferð sinni til að endurfjármagna skuldir sínar og koma á vaxtar-hvetjandi endurbótum. Önnur jákvæð atkvæðagreiðsla mun greiða leiðina að útborgun næsta hluta fjárhagsaðstoðarinnar. Hún myndi einnig flýta fyrir vinnu á lánapakka númer tvö, sem mun gera landinu kleyft að halda áfram og endurvekja vonir grísku þjóðarinnar.“

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, sagði atkvæðagreiðsluna vera mikilvægt skref fyrir framtíð Grikklands og stöðugleika evrunnar. Þýskaland og Evrópusambandið væru reiðubúin til að aðstoða Grikki.

Gríska þingið hefur sýnt „að það er meðvitað um ábyrgð sína gagnvart landinu og evru-svæðinu,“ sagði Wolfgang Schaeuble, fjármálaráðherra Þýskalands.

Forsætisráðherra Finnlands, Jyrki Katainen, sagði að finnskir bankar myndu taka þátt í viðræðum um annan lánapakka til handa Grikkjum en Finnar voru lengi að samþykkja að taka þátt í björgunarpakka ESB og AMF. „Þetta snertir Finna sannarlega líka.. Ef þetta kallar á viðræður við bankana, þá tökum við þátt í því.“

Fjármálaráðherra Hollands, Jan Kees de Jager, sagði um samþykktina í dag: „Hún er afar mikilvæg því ef ekki hefði orðið af henni hefði það haft gríðarleg vandamál í för með sér fyrir Grikkland.. Og þetta eru líka góðar fréttir fyrir fjármálastöðugleikan í Evrópu og í heiminum. Nú getum við tekið skref til þess að styðja hvort við annað. Við erum í sama bát. Okkar hagsmunir liggja einnig undir því að Grikkland taki til hjá sér.“

Forsætisráðherra Grikklands, George Papandreou, mælti fyrir aðhaldsaðgerðunum sem samþykktar voru …
Forsætisráðherra Grikklands, George Papandreou, mælti fyrir aðhaldsaðgerðunum sem samþykktar voru í gríska þinginu í dag. Reuter
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert