Barnaði ellefu ára stúlku

Mynd úr safni.
Mynd úr safni. Ásdís Ásgeirsdóttir

Maður í Ástralíu hefur verið dæmdur í tíu ára fangelsi fyrir að misnota unga stúlku á löngu tímabili og barna hana þegar hún var aðeins ellefu ára gömul. Maðurinn bar fyrir sig að í hans samfélagi væri það í lagi að hafa samfarir við börn.

Maðurinn tilheyrir sama þjóðarbroti og stúlkan og var vinur fjölskyldu  hennar þegar misnotkunin hófst árið 2008. Í október ól stúlkan manninum son.

Ekki var gefið upp í dómsskjölunum hvaða þjóðarbroti þau tilheyra.

Maðurinn, sem er 31 árs gamall, sagði við málsvörn sína að í sínum menningarheimi væru engin aldurstakmörk þegar kæmi að því að velja sér kynlífsfélaga.

Dómarinn, Lisa Hannan, sagði hins vegar að gjörðir mannsins hefðu þótt „hryllilegar hverjum þeim sem hefur snefil af velsæmi og siðferðiskennd.“

„Hvort sem það þykir eðlilegt eða ekki í hvaða menningarkima í heiminum sem er, er málinu óviðkomandi,“ sagði hún. „Þú vissir að það sem þú varst að gera var rangt.“

Hún sagði að stúlkan hefði átt að geta treyst manninum og að hann hefði stórkostlega og ítrekað misnotað það traust.

„Þú rændir hana barnæskunni. Þú tókst af henni sjálfsvirðinguna og vaktir með henni sektarkennd vegna einhvers sem er algjörlega þér að kenna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert