Telja 80% líkur á bandarískri kreppu

Verðbréfamiðlarar á Wall Street.
Verðbréfamiðlarar á Wall Street. Reuters

80% líkur eru á því að Bandaríkin gangi í gegnum aðra kreppu, að mati sérfræðinga fjármálafyrirtækisins Merrill Lynch. Greiningin er í takt við niðurstöður fleiri greiningaraðila í bandarísku fjármálalífi að undanförnu.

Telja sérfræðingar Merrill Lynch að líkur á kreppu þegar á næsta ári hafi aukist úr 35% í 40%, nú þegar um fjórir mánuðir eru eftir af árinu. Er greiningin í takt við nýjar hagvaxtartölur sem sýna að bandaríska hagkerfið vex hvergi nærri nógu hratt til að sköpun starfa gangi á atvinnuleysið.

Það eru mikil ótíðindi fyrir Barack Obama Bandaríkjaforseta sem mun að óbreyttu róa lífróður að því að tryggja sér endurkjör í forsetakosningunum haustið 2012. 

Seðlabanki Philadelpiu er svartsýnni en Merrill Lynch og metur líkur á annarri kreppu 85,7%, að því er fram kemur á vef fjármálastöðvarinnar CNBC.

Er þar jafnframt haft eftir Peter Schiff, forstjóra fjármálafyrirtækisins Euro Pacific Capital, að 100% líkur séu á annarri kreppu. Raunar séu vísbendingar um að hún sé þegar hafin.

Áhugasamir geta nálgast myndband Merrill Lynch um stöðuna í bandarísku efnahagslífi á fyrri helmingi ársins hér en það er frá því fyrr í sumar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert