Gaddafi vill ræða um valdaskipti

Sumarhús Gaddafis skammt frá höfuðborginni Tripoli.
Sumarhús Gaddafis skammt frá höfuðborginni Tripoli. Reuters

Múammar Gaddafi er reiðubúinn til að hefja viðræður um valdaskipti í Líbíu að sögn talsmanns hans. Verði viðræðurnar undir stjórn Saadi, sonar Gaddafis. Ólíklegt er talið að uppreisnarmenn taki þessu boði.

Uppreisnarmenn, sem ráða nú nær öllu landinu, þar á meðal höfuðborginni Tripoli, telja að Gaddafi sé enn í felum á höfuðborgarsvæðinu. 

Breska ríkisútvarpið segir, að þetta tilboð virðist enn ein vísbendingin um að Gaddafi og nánustu samstarfsmenn hans séu ekki í takt við raunveruleikann. 

AP fréttastofan segir, að Moussa Ibrahim, talsmaður Gaddafis, hafi hringt í höfuðstöðvar AP í New York seint í gærkvöldi og sagt að Gaddafi væri enn í Líbíu. Sagðist Ibrahim sjálfur vera í Tripoli og hafa hitt Gaddafi síðast á föstudag.

Sagði Ibrahim, að Gaddafi byðist til að ræða við uppreisnarmenn um að mynda bráðabirgðastjórn. Til þessa hefur Gaddafi kallað uppreisnarmenn glæpamenn og rottur. Fulltrúar uppreisnarmanna segjast ekkert hafa við Gaddafi að tala.  

Uppreisnarmenn segja, að verið sé að flytja vatn og eldsneyti til Tripoli en þeir óttast, að hersveitir Gaddaifs hafi eitrað vatnsból borgarinnar. 

Saadi Al Gaddafi.
Saadi Al Gaddafi. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert