Liechtensteinar kjósa um fóstureyðingar

Frá Liechtenstein.
Frá Liechtenstein. AP

Liechtensteinar munu ganga að kjörborðinu á sunnudaginn og kjósa um hvort fóstureyðingar eigi að verða löglegar í landinu. Þjóðhöfðingi landsins, Prins Alois von und zu Liechtenstein er afar mótfallinn fóstureyðingum, og segist ekki ætla að skrifa undir lög þessa efnis, falli atkvæði á þann veg.

Prinsinn er ekki sá eini sem er andvígur fóstureyðingum, en bæði ríkisstjórn og þing landsins eru þeim mótfallin.

Þetta er í annað skipti í ár sem kosið er um umdeild mál í landinu, en í júní var kosið um hvort leyfa ætti borgaralegar hjónavígslur samkynhneigðra og var það samþykkt.

18.800 manns eru á kjörskrá í Liechtenstein og munu þeir taka afstöðu til þess hvort leyfa eigi fóstureyðingar á fyrstu 12 vikum meðgöngu. Fóstureyðingar eru ólöglegar í landinu og verði einhver uppvís að því að hafa framkvæmt þær eða gengist undir þær getur það varðað eins árs fangelsisvist, jafnvel þó að aðgerðin hafi verið framkvæmd í öðru landi. Talið er að a.m.k. 50 konur fari í fóstureyðingu í nágrannalöndunum á hverju ári.

Sameinuðu þjóðirnar hafa ítrekað farið þess á leit við yfirvöld í Liechtenstein að þau hætti að skilgreina fóstureyðingar sem glæpi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert