Obama undirbýr hátekjuskatt

Barack Obama forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama forseti Bandaríkjanna. Reuters

Barack Obama Bandaríkjaforseti er að undirbúa tillögur um að hækka skatta á þá sem fá eina milljón dala eða meira í árstekjur. Talið er að þessar tillögur, sem kynntar verða á morgun, muni mæta harðri mótspyrnu innan Repúblikanaflokksins.

Að sögn blaðsins Los Angeles Times eru þessar hugmyndir nefndar Buffett-reglan eftir kaupsýslumanninum Warren Buffett en hann hefur gagnrýnt skattkerfið og sagt að hann borgi lægri skatta en einkaritarinn hans.

Samkvæmt tillögunum, sem forsetinn er að undirbúa, mun hátekjufólk greiða að minnsta kosti sama skatthlutfall og það fólk, sem er með meðaltekjur. Kerfið á að koma í stað núverandi kerfis, sem þykir afar flókið, en því var komið á fyrir nokkrum áratugum til að tryggja að hinir ríku greiddu að minnsta kosti einhverja tekjuskatta.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert