Keypti lúxusbíl fyrir 11 þúsund krónur

Bíll af gerðinni Audi A6.
Bíll af gerðinni Audi A6.

Bíræfnum norskum svindlara tókst að kaupa nýlegan Audi A6-bíl, sem átti að kosta 545 þúsund norskar krónur, 11 milljónir íslenskra króna, fyrir 545 krónur með því að bæta þremur núllum á bankakvittun fyrir innborgun.

Sagt er frá málinu á vef blaðsins Aftenposten. Bíllinn var auglýstur á bílasöluvef og var uppsett verð 567.648 norskar krónur.  51 árs gamall maður hafði samband við bíleigandann og síðan tókust samningar um bílaviðskiptin, ungi maðurinn ætlaði að kaupa bílinn fyrir 545 þúsund krónur.

Kaupandinn þurfti tíma til að útvega peninga en hringdi síðan í seljandann og sagðist vera búinn að borga söluverðið inn á reikning hans. Hann sótti síðan bílinn og framvísaði bankakvittun upp á 545 þúsund krónur; seljandinn áttaði sig ekki á því að þremur núllum hafði verið fagmannlega bætt við upphaflegu fjárhæðina á kvittuninni.

Þegar seljandinn skoðaði stöðuna á bankareikningnum sínum daginn eftir kom hins vegar í ljós, að inneignin hafði aðeins hækkað um 545 krónur og ekki kom fram hver greiðandinn var. Maðurinn hafði samband við norsku umferðarstofuna og þá kom í ljós að á sömu stundu var verið að skrá eigendaskipti á bílnum á umferðarstofu í Risløkka.

Seljandinn flýtti sér á staðinn en greip í tómt. Kaupandinn og 27 ára gamall sonur hans, sem í raun var potturinn og pannan í svindlinu, voru á brott en þeir höfðu ekki getað borgað gjaldið fyrir eigendaskiptin. 

Bíllinn fannst síðan í þessari viku þegar nýr eigandi ætlaði að skrá eigendaskipti hjá umferðarstofunni. Sá hafði keypt bílinn af 27 ára manninum fyrir 250 þúsund krónur. Í stað þess að fá bílinn skráðan á sitt nafn þurfti nýi eigandinn að horfa upp á að lögregla kom og lagði hald á bílinn og afhenti hann upphaflega eigandanum.  

Sá sem keypti bílinn síðast, og vinur hans, sem einnig keypti bíl af 27 ára manninum, sitja nú eftir með sárt ennið því peningarnir, sem þeir greiddu, eru horfnir. 

Ungi maðurinn hefur margoft verið ákærður og dæmdur fyrir fjársvik og í mörg skipti hefur hann bætt við núllum á kvittanir. Faðir hans situr nú í fangelsi og afplánar dóm fyrir virðisaukaskattabrot. 

Vefur Aftenposten

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert