Obama fagnar samkomulagi evruríkjanna

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna. Reuters

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, er á meðal þeirra þjóðarleiðtoga sem hafa fagnað því samkomulagi sem leiðtogar evruríkjanna hafa náð varðandi lausn skuldavandans. Verð á hlutabréfum hækkaði á mörkuðum í kjölfar fregna um samkomulagið.

Obama segir að enn sé mörgum verkefnum ólokið. Hann segir að bandrísk stjórnvöld muni leggja sitt af mörkum til að leggja evruríkjunum lið. Undanfarna mánuði hefur Obama sett mikinn þrýsting á Evrópusambandið, en hann hefur hvatt sambandið til að grípa til aðgerða þegar í stað til að vernda evruna og koma í veg fyrir að skuldavandi evruríkjanna leiði til nýrrar heimskreppu.

„Við fögnum þeim mikilvægu ákvörðunum sem Evrópusambandið hefur tekið, sem leggja grunninn að heildstæðri lausn á vanda evruríkjanna,“ segir Obama í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér.

Obama segist hlakka til að sjá aðgerðaáætlunina verða að veruleika. Bandaríkin muni áfram styðja við bakið á ESB í baráttunni við skuldavandann. Menn muni vinna sameiginlega að því að stuðla að efnahagsbata og koma fólki aftur út á vinnumarkaðinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert