Grísk atkvæðagreiðsla hugsanlega í desember

Máninn yfir Akrópólishæð í Aþenu.
Máninn yfir Akrópólishæð í Aþenu.

Ríkisstjórn Grikklands samþykkti í nótt tillögu Georges Papandreous forsætisráðherra um að bera samkomulagið undir grísku þjóðina en í því felst m.a. að gríska ríkið verður að skera útgjöld enn frekar niður.

Reuters-fréttastofan hefur eftir Ilias Mosialos, talsmanni grísku stjórnarinnar, að þjóðaratkvæðagreiðslan muni fara fram um leið og grundvöllur samkomulagsins verði ljós.

Grískir embættismenn hafa sagt að atkvæðagreiðslan verði líklega um miðjan janúar en Reuters hefur eftir innanríkisráðerra landsins, að hugsanlega geti atkvæðagreiðslan farið fram í desember en vinna við endanlega útfærslu samkomulagsins gangi betur en áætlað sé.

Fjármálamarkaðir hafa brugðist illa við áformum grískra stjórnvalda um þjóðaratkvæðagreiðslu. Skoðanakannanir benda til þess að flestir Grikkir telji að samkomulag evruríkjanna sé ekki hagstætt fyrir þá en niðurstaðan gæti ráðist af því hvernig Papandreou leggur málið upp. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert