Romney segist vinur Ísraels

Mitt Romney, forsetaframbjóðandi.
Mitt Romney, forsetaframbjóðandi. Reuter

Mitt Romney, forsetaframbjóðandi Repúblikana, vill auka hernaðaraðstoð við Ísrael, sagði talsmaður hans í dag en í gær virtist hann styðja þá hugmynd að færa alla aðstoð við erlend ríki niður í núll.

Rick Perry, ríkisstjóri Texas og einn mótframbjóðenda Romney, sagði í gær að ef hann næði kjöri myndi hann taka aðstoð Bandaríkjanna við önnur ríki til gagngerrar endurskoðunnar.

„Sú upphæð sem ríkisstjórn mín veitir til erlendra ríkja mun byrja í núlli,“ sagði Perry. Almennar umræður þyrftu að fara fram í Bandaríkjunum hvort veita ætti skattpeningum í aðstoð til annarra ríkja.

Spurður að því hvort þetta ætti líka við um Ísrael, svaraði Perry að Ísrael væri „sérstakur bandamaður“ sem myndi að öllum líkindum fá umtalsverða aðstoð en „það virðist skynsamlegt að allir byrji í núlli og færi síðan rök fyrir máli sínu,“ sagði Perry.

Í svari sínu við spurningu sem varðaði Pakistan sagði Romney að hann væri sammála Perry um aðstoð til erlendra ríkja, byrja þyrfti í núlli. Talsmaður hans hefur hins vegar ítrekað í dag, að þegar hann lét þessi ummæli falla átti hann einungis við Pakistan.

Kosningateymi Romneys sendi einnig frá sér tilkynningu þar sem sagði m.a. að hann væri „vinur Ísrael“ og að Ísrael væri „einstakur og ómissandi pólitískur og efnahagslegur bandamaður Bandaríkjanna.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert