Rekinn fyrir að vera með HIV

Frá útsendingarherbergi Al-Jazeera í Katar.
Frá útsendingarherbergi Al-Jazeera í Katar. Reuters

Blaðamaður frá Suður-Afríku var fluttur frá Katar eftir að hafa verið greindur HIV-jákvæður og rekinn af sjónvarpsstöðinni Al-Jazeera, þar sem hann vann, sem er með höfuðstöðvar í Doha, höfuðborg Katar. AFP fréttastofan segir frá þessu í dag. 

Blaðamaðurinn gekkst undir læknisrannsókn til að fá dvalarleyfi en var aðeins upplýstur um að hann væri HIV-jákvæður þegar staðan var prentuð á sjúkrakort mánuði síðar. Daginn eftir var haft samband við hann frá starfsmannasviði Al-Jazeera og honum sagt að koma á skrifstofuna morguninn eftir. Þar var hann handtekinn og keyrður í fangelsi þar sem hann dvaldi þar til daginn eftir þegar hann var fluttur aftur til Suður-Afríku. Enginn frá Al-Jazeera hefur haft samband við hann eftir brottflutningana. Hann vill starf sitt aftur og það getur hann unnið frá skrifstofu Al-Jazeera í Jóhannesarborg. Blaðamaðurinn gegndi starfi aðstoðarritstjóra vefsíðu Al-Jazeera frá því í október 2010.

Mannréttindasamtök hafa óskað eftir því að Alþjóða vinnumálastofnunin sendi kvörtun til Katar en útlendingum með HIV er úthýst úr landinu. Einu svör Al-Jazeera við málinu eru að starfsmaður sem flytur til nýs lands þurfi að standast kröfur útlendingastofnunar þar. Katar er eitt af fimm löndum sem banna HIV-jákvæðum erlendum ríkisborgurum inngöngu í landið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert