Hraðbankar tæmdir í Lettlandi

Yfir 100 haðbankar frá sænska bankanum Swedbank í Lettlandi tæmdust í gærkvöldi þegar innistæðueigendur tóku fé sitt út af reikningum í bankanum. Ástæðan var orðrómur, sem barst með Twitter-vefnum, um að Swedbank ætti í miklum fjárhagserfiðleikum.

Alls tæmdust 126 hraðbankar af 298, sem Swedbank rekur í Lettlandi, en bankinn er stærsta lánastofnunin þar í landi. Biðraðir mynduðust við hraðbankana vegna orðróms, sem fór eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla á netinu, um að hraðbankar Swedbank í Svíþjóð og Eistlandi væru þegar orðnir tómir. 

Í yfirlýsingu á vef bankans í Lettlandi segir Maris Mancinskis, framkvæmdastjóri Swedbank í Lettlandi, að þessi orðrómur sé ekki aðeins rangur heldur fáránlegur. Bankinn eigi ekki í neinum slíkum erfiðleikum. Hins vegar hafi miklar úttektir í gær valdið vandræðum. Þær voru 10 sinnum meiri en á venjulegum degi. 

Janis Brazovskis, yfirmaður fjármálaeftirlitsins í Lettlandi, sagði að lögreglan væri að rannsaka hvaðan orðrómurinn, sem virðist hafa borist milli manna á netinu og með sms, væri upprunninn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert