Stark gagnrýnir skuldabréfakaup Evrópska Seðlabankans

Höfuðstöðvar Evrópska Seðlabankans í Frankfurt í Þýskalandi.
Höfuðstöðvar Evrópska Seðlabankans í Frankfurt í Þýskalandi. Reuters

Jurgen Stark, fráfarandi yfirhagfræðingur Evrópska Seðlabankans gagnrýnir harkalega skuldbréfakaup bankans og þá stefnu hans að reyna að leysa skuldavanda evrusvæðisins með slíkum kaupum, í viðtali sem birtist í þýska tímaritinu Wirtschaftswoche í dag.

„Ekki krefjast of mikils af Seðlabankanum,“ sagði Stark og bætti við „Við höfum frá því í maí á síðasta ári keypt skuldabréf fyrir um það bil 210 milljarða evra .... Við getum ekki haldið áfram að blása út útgjöldin okkar án takmarkana.“

Stark hefur áður gagnrýnt skuldabréfakaup Evrópska Seðlabankans og haldið því fram að slík kaup leysi ekki rót vandans á bakvið skuldakreppu evrusvæðisins. Mario Draghi, formaður Evrópska Seðlabankans, hefur einnig gagnrýnt skuldabréfakaupin.

Stark hverfur úr embætti sínu um áramótin. Uppsögn hans í september síðastliðnum kom mörgum á óvart, en sérfræðingar telja að hún sé afleiðing andstöðu hans við skuldabréfakaupin.

Í viðtalinu við Wirtschaftswoche mældi Stark með því að niðurstöður leiðtogafundarins, sem haldinn var 8. desember síðastliðinn, yrðu gerðar að raunveruleika eins fljótt og mögulegt er. Hann gagnrýndi einnig Grikkland í viðtalinu og hélt því fram að Grikkir hefðu hægt á endurbótum sínum og að þeir kysu frekar að kenna öðrum löndum um eigin vandræði heldur en að ráðast í að leysa fjárhagsvandann sem landið á við að stríða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert