Mótmæltu kynjaskiptingu

Frá mótmælunum í Jerúsalem í dag.
Frá mótmælunum í Jerúsalem í dag. Reuters

Tugir mannréttindasinna í Jerúsalem mótmæltu í dag þeirri óskráðu reglu strangtrúaðra gyðinga að konur skuli sitja aftast í strætisvögnum, en karlar framar.

Mótmælin fóru friðsamlega fram og fólust í því að fólkið fór um borð í strætisvagna sem aka um hverfi strangtrúaðra gyðinga og settist þar sem því hugnaðist.

Strangtrúaðir gyðingar sýndu lítil viðbrögð við þessu, en mannréttindasamtök gyðinga hafa barist í mörg ár fyrir afnámi þessarar siðvenju.

Mikil umræða hefur verið að undanförnu í Ísrael um hegðun og venjur strangtrúaðra gyðinga, með sérstakri áherslu á jafnrétti kynjanna, sem ekki er í hávegum haft meðal þeirra.

Umræðan jókst mjög eftir að ísraelsk sjónvarpsstöð sýndi myndir frá bænum Beit Shemesh þar sem karlar sáust hrækja á konur sem þeim þótti ósiðsamlega klæddar. Þeir sáust einnig hrópa fúkyrði að átta ára gamalli stúlku sem var ekki klædd eins og þeim þótti viðeigandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert