70 enn saknað eftir strand

Enn er saknað sjötíu farþega, sem voru um borð í skemmtiferðaskipinu Costa Concordia þegar það strandaði við Ítalíu í gærkvöldi. Hugsanlegt er þó að fólkið hafi komist heilu og höldnu til eyjarinnar Giglio, skammt frá strandstaðnum. 

Útgerð skipsins hefur veitt ítölskum embættismönnum þær upplýsingar að 4.234 hafi verið um borð í skipinu þegar það strandaði. Af því voru um 3.200 farþegar og rúmlega þúsund í áhöfn. AFP-fréttastofan hefur eftir embættismanni, að búið sé að hafa uppi á 4.165 manns en verið sé að ganga í hús á Giglio til að kanna hvort farþegar hafi fengið þar húsaskjól.

Fyrr í dag kom fram að þrír farþegar að minnsta kosti létu lífið eftir strandið og um 50 slösuðust.  

Uppfært:

Staðfest er að þrír hafi fundist látnir. Fjöldi þeirra sem saknað er fer ört lækkandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert