Áhyggjur af fækkandi hvalveiðimönnum

Hrefna.
Hrefna.

Norsk stjórnvöld hvöttu þarlenda hvalveiðimenn í dag til að bregðast við mikilli fækkun í þeirra röðum. 33 bátar stunduðu hrefnuveiðar árið 2001 en aðeins 19 á síðasta ári.

„Stjórnvöld leggja áherslu á mikilvægi þess, að atvinnugreinin vinni sjálf að því að fá nýtt fólk þar inn," segir í tilkynningu frá norska sjávarútvegsráðuneytinu. 

Norðmenn hafa stundað hrefnuveiðar í atvinnuskyni þrátt fyrir hvalveiðibann Alþjóðahvalveiðiráðsins vegna þess að þeir mótmæltu banninu þegar það var sett 1986 og eru því ekki bundnir af því. Íslendingar eru heldur ekki bundnir af banninu þar sem þeir gerðu fyrirvara við það þegar þeir gengu á ný í Alþjóðahvalveiðiráðið árið 2001.

Norsk stjórnvöld hafa smátt og smátt aukið hrefnuveiðikvótann en veiðin hefur hins vegar dregist saman vegna þess að þeim fækkar, sem sækja á hrefnumiðin. Þannig var leyft að veiða 1286 hrefnur á síðasta ári en kvótinn var 549 dýr árið 2001. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert