Fjársjóður í skipsflakinu?

Fallbyssa í flaki HMS Victory.
Fallbyssa í flaki HMS Victory.

Til stendur að hífa flak skipsins HMS Victory af hafsbotni í Ermarsundi þar sem það sökk fyrir nærri þrjú hundruð árum. Skipið var forveri hins fræga flaggskips Nelsons flotaforingja en það sökk í miklu óveðri undan Ermarsundseyjum árið 1744. Alls fórust um þúsund sjóliðar þegar skipið sökk.

Auk fjölda bronsfallbyssa telja sumir að um borð í skipinu hafi verið mikið magn af gullpeningum sem verið var að flytja frá Lissabon til Bretlands. Gæti andvirði fjársjóðsins verið allt að 80,5 milljarðar króna. Breska blaðið The Guardian segir frá þessu.

Samkvæmt Sunday Times verður flakið afhent Sjóminjasjóði Bretlands en búist er við að bandarískt fyrirtæki sem fann flakið fyrir fjórum árum verði fengið til þess að hífa það upp af sjávarbotninum.

Fallbyssurnar og aðrir munir yrðu til sýnis á breskum söfnum en bandaríska fyrirtækið Odyssey myndi líklega hirða meirihlutann af hugsanlegum fjársóði um borð samkvæmt lögum um björgun verðmæta.

Staðsetning skipsins var ráðgáta sem margir leitarmenn glímdu við þar til Odyssey fann flakið í maí árið 2008. Fannst það á 330 feta dýpi í Ermarsundi, rúmum hundrað kílómetrum frá þeim stað sem talið var að það hefði sokkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert