Senda háþróað herskip til Falklandseyja

HMS Dauntless.
HMS Dauntless. Reuters

Bresk stjórnvöld tilkynntu í dag að þau hygðust senda nýtt háþróað herskip til Falklandseyja en þau tóku þó skýrt fram að ferð skipsins til eyjanna tengdist engan veginn auknum ágreiningi um fullveldi eyjanna.

Að sögn talsmanns breska varnarmálaráðuneytisins var ákvörðunin um að senda skipið, sem ber nafnið HMS Dauntless, tekin fyrir löngu síðan. Skipið mun brátt sigla að Suður-Atlantshafi í jómfrúarferð sinni og stefnt er að því að það muni að nokkrum mánuðum liðnum taka við af freigátunni HMS Montrose sem nú sér um að verja Falklandseyjar.

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, reitti í síðustu viku stjórnvöld í Argentínu til reiði þegar hann ásakaði þau um að aðhyllast „nýlendustefnu“ í tilkalli sínu til eyjanna.

Ágreiningur um fullveldi eyjanna hefur aukist á síðustu misserum en brátt verða 30 ár liðin frá því að Falklandseyjastríðið á milli Bretlands og Argentínu hófst.

„Það er ekkert óeðlilegt við þessa för, þetta felur ekki í sér neina breytingu á ástandinu,“ sagði William Hague, utanríkisráðherra Bretlands við sjónvarpsstöðina Sky News og bætti við „Við sendum skip þangað reglulega. Við erum með herlið á Falklandseyjum og sömuleiðis herþotur. Bresk herskip sigla einnig reglulega þangað.“

Falklandseyjastríðið hófst 2. apríl árið 1982 þegar að argentínska herstjórnin réðist með herlið á eyjarnar sem eru breskt yfirráðasvæði. Stríðinu lauk 74 dögum síðar en þá höfðu 649 argentínskir hermenn og 255 breskir hermenn látið lífið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert