Forseti Afganistans vill mennta stúlkur

Hamid Karzai, forseti Afganistans, skoraði í dag á trúarleiðtoga og foringja ættbálka í landinu að leggja sitt af mörkum til að greiða veg stúlkna til menntunar. Undir stjórn talíbana var afgönskum konum bannað að mennta sig. 

Forsetinn flutti ræðu á athöfn í tilefni af upphafi nýs skólaárs í landinu. Hann hvatti líka skæruliðahópa til að ráðast ekki á kennara og skólabörn, því landið gæti aðeins þróast með aukinni menntun. 

„Umfram allt kalla ég eftir því að trúarleiðtogar og öldungar ættbálka sem hér eru staddir í dag hvetji til þess að stúlkur mennti sig,“ sagði Karzai. „Að hvetja börn til menntunar, og þá ekki síst stúlkur, er afar mikilvægt og nauðsynlegt. Við erum enn á meðal vanþróuðustu ríkja heims og það er ekkert vafamál að við þróumst ekki fram á við án menntunar.“

Máttu ekki fara einar út úr húsi

Það varð mikið áfall fyrir konur í Afganistan þegar talíbanar komust til valda árið 1996. Þeir bönnuðu konum að mennta sig og sækja vinnu og um tíma máttu þær ekki einu sinni fara út úr húsi í Afganistan nema í fylgd karlmanna. Þetta ástand ríkti þar til talíbönum var steypt af stóli árið 2001. 

Ástandið hefur síðan batnað talsvert, því árið 2002 gekk aðeins ein milljón afganskra barna í skóla, en í dag eru skólabörn 8,4 milljónir, þar af 39% stúlkur. En betur má ef duga skal því enn eru 9,5 milljónir barna í Afganistan sem aldrei hafa gengið í skóla. Karzai sagði í dag að ástandið í Afganistan myndi halda áfram að vera ömurlegt yrði fólki ekki gert kleift að mennta sig. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert