Vatíkanið ávítir róttækar nunnur

Vatíkanið hefur illan bifur á róttækum nunnum.
Vatíkanið hefur illan bifur á róttækum nunnum. AP

Vatikanið hefur fyrirskipað að gripið verði til aðgerða gegn bandarískum nunnum, sem það telur vera allt of róttækar. Að sögn Vatikansins grafa nunnurnar undan boðskap rómversk-kaþólsku kirkjunnar um samkynhneigð, og halda á lofti „feminískum áherslum sem eru ósamræmanleg við kaþólska trú".

Um er að ræða samtökin Leiðsögn trúaðra kvenna, sem eru stærstu skipulögðu samtök kaþólskra nunna í Bandaríkjunum. Að sögn BBC hefur Vatikanið skipað sérstakan erkibiskup til að annast endurbætur á starfsemi samtakanna til að tryggja að hún sé í samræmi við kaþólskar hefðir og fyrirbænir.

Leiðtogaþjálfun fyrir konur innan kirkjunnar

Um 57.000 nunnur eru meðlimir í samtökunum, sem eiga höfuðstöðvar í Maryland í Bandaríkjunum. Á vegum þeirra fer fram ýmiskonar starfsemi, allt frá leiðtogaþjálfun fyrir konur innan kirkjunnar til baráttu fyrir félagslegum umbótum. Æðstu menn kaþólsku kirkjunnar virðast þó sjá samtökin sem ógn.

Meðal þess sem Vatikanið hefur áhyggjur af er að „grundvallarmálefni" kirkjunnar, s.s. andstaða við fóstureyðingar og líknardauða, hafi verið hundsuð af samtökunum. Þá hefur Vatikanið ávítað nunnurnar fyrir opinberar yfirlýsingar sem séu í andstöðu við eða grafi undan þeirri afstöðu sem biskupar kirkjunnar hafi. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert