Fréttaskýring: Stefnir í tvísýnustu kosningar í áratugi í Frakklandi

Fyrri umferð frönsku forsetakosninganna fer fram á morgun
Fyrri umferð frönsku forsetakosninganna fer fram á morgun AFP

Kosningabaráttunni vegna fyrri umferðar frönsku forsetakosninganna á morgun, sunnudag, lauk í gær en samkvæmt lögum er frambjóðendum bannað að efna til stjórnmálafunda daginn fyrir kosningar. Stjórnmálaskýrendur eru á því að atkvæði óákveðinna kjósenda geti ráðið úrslitum um niðurstöðurnar.

Í gær og fyrradag voru þó birtar sex nýjar skoðanakannanir sem benda flestar til þess að frambjóðandi Sósíalistaflokksins, Francois Hollande, verði hlutskarpastur; bæði í fyrri umferðinni á morgun og í þeirri seinni, sunnudaginn 6. maí næstkomandi.

Af sex nýjustu könnunum á fylgi við frambjóðendur er Hollande efstur í fjórum, með sama fylgi og Nicolas Sarkozy forseti í einni, en í einungis einni könnun er forsetinn ofar í fyrri umferðinni. Í fjórum fyrstnefndu liggur fylgi Hollande á bilinu 27-30% en Sarkozy á bilinu 25-26,5%. Í könnun TNS Sofres-stofnunarinnar eru báðir með 27% fylgi og einungis í könnun Ifop-stofnunarinnar er Sarkozy ofar, með  30% fylgi en Hollande 28%.

Fjölmargir kjósendur enn óákveðnir

Áberandi er hversu kjósendur hafa verið óákveðnir í afstöðu sinni til frambjóðenda og sveiflast milli þeirra. Sögðust til að mynda 38% í könnun CSA-stofnunarinnar í fyrradag  enn geta átt eftir að skipta um skoðun fyrir sunnudag og kjósa annan en þeir ætluðu í gær.

Milli sex og átta milljónir kjósenda, eða 23%, höfðu ekki enn gert upp hug sinn um hvernig þeir myndu kjósa þremur dögum fyrir kjördag. Er það ein helsta niðurstaða könnunar Opinion Poll-stofnunarinnar fyrir dagblaðið Le Figaro og sjónvarpsstöðina LCI. Og verði kosningarnar í ár í einhverri líkingu við 2007 munu 14% kjósenda ekki ákveða sig hvern þeir kjósa fyrr en þeir standa með atkvæðaseðilinn í höndum í kjörklefanum.

Vegna þess hversu mikilvæg atkvæði hinna óákveðnu eru finnst sérfræðingum nær útilokað að segja til um niðurstöður fyrstu umferðarinnar. „Með tilliti til þess hversu litlu munar á Sarkozy og  Hollande gætum við átt eftir að sjá breytta mynd á sunnudagskvöld,“ segir Bruno Jeanbart, yfirmaður Opinionway-stofnunarinnar.

Valið á milli Le Pen og Sarkozy á hægri vængnum

Hinir óákveðnu á hægri vængnum eru hikandi um hvort þeir kjósi Marine Le Pen, frambjóðanda Þjóðfylkingarinnar, flokks hægri öfgamanna, eða Sarkozy. Á vinstri vængnum hika kjósendur milli róttæklingsins Jean-Luc Melenchon og Hollande.

Hverjir eru það sem eru óákveðnir? Þann flokk hefur venjulega fyllt fólk sem látið hefur stjórnmál sig litlu varða svo og fólk með litla menntun. Í dag er öldin hins vegar önnur, að sögn Jerome Fourquet, forstjóra könnunardeildar Ifop-stofnunarinnar. Nú eru óákveðnir kjósendur aðallega ungt fólk - 40% þeirra eru undir 35 ára og aðeins 15% eldri en 65. Þá eru 36% kvenna óákveðin en 26% karla. Einnig hafa 39% stjórnenda fyrirtækja og iðnaðar- og verktakar verið hikandi í afstöðu sinni, en aðeins 29% verkamanna. Og loks kemur í ljós  að margir þeir sem verið hafa tvístígandi eru mjög vel að sér um stjórnmálin og bíða þess einfaldlega að bíða og sjá til að geta varið atkvæði sínu strategískt.

Sarkozy fyrsti forsetinn sem er „áskorandi“

Sarkozy er í þeirri sögulegu stöðu að vera fyrsti forseti Frakklands frá því fylgismælingar fyrir kosningar komu til sögu, sem er „áskorandi“, að því leyti til að allar mælingar hingað til hafa sýnt hann fylgisminni en Hollande gagnvart seinni umferðinni. Munurinn á þeim í seinni umferðinni er á bilinu 7-14 prósentustig, samkvæmt þessum könnunum.

Almennt virðist fréttaskýrendum sem það séu ekki vinsældir Hollande sem geri það að verkum að hann virðist nú líklegri en Sarkozy til að verða kjörinn forseti 6. maí. Miklu fremur séu það hatur á persónunni Sarkozy sem skýri stöðuna. Stórum hluta hins almenna kjósanda, jafnt til vinstri sem hægri, hefur mislíkað margt í fari og framgöngu Sarkozy þótt hinir sömu séu sammála stefnu hans. Þannig skýra rúmlega 60% kjósenda Hollande þá ákvörðun sína í könnunum, að það geri þeir einungis til að losna við Sarkozy úr Elysee-höll.

Mun meiri sveiflur eru á fylgi þessara tveggja frambjóðenda í seinni umferðinni samkvæmt könnunum. Þær stefna þó allar í sömu átt; Hollande er ofar Sarkozy í þeim öllum. Hjá Ifop mælist munurinn 7% (53,5-46,5) og upp í 14 prósentustig hjá BVA-stofnuninni og CSA (57-43) 

Að sögn Ipsos nýtur Hollande þess, að 80% kjósenda öfgavinstrimannsins Jean-Luc Melenchon á sunnudag segjast munu kjósa hann í seinni umferðinni. Til samanburðar mun Sarkozy einungis fá stuðning 45% kjósenda Marine Le Pen hinn 6. maí. Samkvæmt sömu mælingum virðast fylgismenn miðjumannsins Francois Bayrou, sem nýtur um 10% fylgis, dreifast jafnt; 35% þeirra muni kjósa Sarkozy í seinni umferðinni og 33% Hollande, en 32% segjast enn óákveðnir í þeim efnum.

Tvísýnt um þriðja sætið milli Le Pen og Melenchon

Auk keppninnar um efsta sætið stefnir í einvígi um þriðja sætið milli Marine Le Pen og  Jean-Luc Melenchon. Sá sem tapar þeim slag telst hafa orðið fyrir áfalli. Melenchon, sem boðað hefur m.a. þjóðnýtingu banka og upptöku allra tekna yfir 20.000 evrum á mánuði, hefur verið í mikilli sókn undanfarnar vikur og ógnað Le Pen. Nýjustu kannanir benda til að það sé aftur að snúast við. Hún segir ekkert minna duga sér en verða fylgismeiri en faðir hennar, Jean-Marie Le Pen, árið 2002 er hann komst í seinni umferðinni. Fylgi hennar liggur á bilinu 14-17% samkvæmt könnunum sex og Melenchon á bilinu 13-15%. Í einni mældust þau fylgisjöfn, hvort með 14%.

Hin mikla sókn Melenchon hefur skyggt nokkuð á Hollande og stjórnmálaskýrendur hafa sagt hann „gísl“ öfgamannsins og ætti eftir að neyðast til að gerast vinstrisinnaðri í málflutningi en honum hafi staðið hugur til.  

Fimm frambjóðendur til viðbótar eru í framboði og hafa þeir alla tíð skrapað botninn í könnunum. Fylgi umhverfisbaráttukonunnar Evu Joly mælist á bilin 2-3%, hægrimannsins Nicolas Dupont-Aignan 1,5-2%, kommúnistanna Philippe Poutou 1-1,5% og  Nathalie Arthaud 0-1% og loks gamla hagfræðingsins Jacques Cheminade 0-0,5%.

Gangi þetta eftir stefnir í að Eva Joly fari ekki verr út úr kosningunum en frambjóðandi græningja 2007 er uppskeran var 1,7%. Lengi vel hefur fylgi hennar verið á milli eins og þriggja prósenta en umhverfismál hafa ekki verið á dagskrá í kosningunum. Vegna kosningabandalags Sósíalistaflokksins og Græningjaflokksins vegna þingkosninganna í júní hafa hægrimenn haldið því fram að Hollande hafi jafnvel heitið fulltrúum þeirra ráðherrastarfi. Í því sambandi hefur Eva Joly verið orðuð við starf dómsmálaráðherra.

Sálrænt forskot að vinna efsta sætið

Ekki verður sagt að kosningabaráttan hafi verið ástríðufull. Þvert á móti þykir hinum almenna borgara hún hafa verið bragðdauf, hreint og beint leiðinleg og eru flestir því fegnir að henni skuli senn ljúka. Af þessum sökum þykir stefna í að kosningaþátttaka verði minni en í nokkrum öðrum forsetakosningum.

Kosningabaráttan hefur snúist mjög um efnahagsmál og forsetinn hampað sér af hlutfallslega góðum hagvexti 2011 og betri árangri í efnahags- og fjármálum en í öðrum ESB-ríkjum að Þýskalandi undanskildu. Í fyrsta sinn í meira en þrjá áratugi varð afgangur á fjárlögum ríkisins. Vaxandi atvinnuleysi hefur hins vegar skyggt á þennan árangur en það mælist um 10%. Báðir lofa þeir Hollande og Sarkozy hallalausum fjárlögum. Forsetinn hefur boðað aðhald í ríkisfjármálum og skuldalækkun til að örva hagvöxt en Hollande hafnar aðhaldi og niðurskurði, hefur þvert á móti þótt boða aukin ríkisútgjöld sem hann segir aukinn hagvöxt eiga standa undir. Þá segist hann ekki munu – verði hann kosinn forseti – samþykkja stöðugleikasáttmála ESB leiði hann ekki til hagvaxtar. Í samkomulaginu, sem kemur til framkvæmda í byrjun næsta árs, er kveðið á um aga og festu í ríkisfjármálum, en Sarkozy átti einna stærstan þátt í að koma því í kring í vetur er tekist var á um björgunaraðgerðir vegna skuldavanda ESB-ríkja.

Í ljósi efnahagskreppunnar í Evrópu hefur almenningi ekki þótt forystuframbjóðendurnir tveir koma til móts við helstu áhyggjuefni þeirra í málflutningi sínum; atvinnuástandið, kaupmátt og menntamálin. Í stefnuskrá Hollande var til að mynda ekki minnst á lægstu laun þótt 10% vinnuaflans hafi 1.124 evrur eða minna í laun á mánuði. Fjórum dögum fyrir kjördag játaði hann loks að hækka þyrfti lágmarkslaunin, án þess þó að segja hversu mikið. 

Að því þykir mikið sálrænt forskot að hreppa efsta sætið í fyrri umferðinni. Miðað við þróunina að undanförnu og sókn Sarkozy í fylgiskönnunum stefnir í tvísýnustu kosningar í áratugi á morgun. Eins og áður segir gætu óákveðnir kjósendur átt eftir að ráða úrslitum.

Margt bendir til þess að Francois Hollande verði næsti forseti …
Margt bendir til þess að Francois Hollande verði næsti forseti Frakklands. AFP
Nicolas Sarkozy forseti Frakklands á fundi í Nice í gær.
Nicolas Sarkozy forseti Frakklands á fundi í Nice í gær. AFP
Frönsku forsetahjónin, Nicolas Sarkozy og Carla Bruni-Sarkozy
Frönsku forsetahjónin, Nicolas Sarkozy og Carla Bruni-Sarkozy AFP
Francois Hollande
Francois Hollande AFP
Francois Bayrou
Francois Bayrou AFP
Eva Joly
Eva Joly AFP
Francois Hollande og Nicolas Sarkozy.
Francois Hollande og Nicolas Sarkozy. AFP
Kjördagur undirbúinn
Kjördagur undirbúinn AFP
Marine Le Pen
Marine Le Pen AFP
Jean-Luc Melenchon
Jean-Luc Melenchon AFP
Nicolas Dupont-Aignan
Nicolas Dupont-Aignan AFP
Philippe Poutou
Philippe Poutou AFP
Nathalie Arthaud
Nathalie Arthaud AFP
Jacques Cheminade
Jacques Cheminade AFP
Tíu sækjast eftir embætti forseta Frakklands að þessu sinni
Tíu sækjast eftir embætti forseta Frakklands að þessu sinni AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert