Sarkozy og Hollande áfram?

Nokkrir franskir fjölmiðlar hafa birt fréttir þess efnis að fyrstu tölur bendi til þess að Nicolas Sarkozy, forseti Frakklands, og Francois Hollande, frambjóðandi Sósíalistaflokksins, fari áfram í aðra umferð forsetakosninganna.

Ekki er hins vegar um staðfestar upplýsingar að ræða þar sem síðustu kjörstöðum verður lokað klukkan 18 að íslenskum tíma, 20 að frönskum tíma. Hins vegar hefur kjörstöðum verið lokað víða á meginlandi Frakklands og á Korsíku.

Er þetta í takt við kosningaspár en engar opinberar tölur verða birtar fyrr en síðustu kjörstöðum hefur verið lokað.

Síðustu kosningaspár voru birtar á föstudag og samkvæmt þeim mun Hollande fara með sigur af hólmi bæði í fyrri umferðinni og þeirri seinni sem fer fram hinn 6. maí næstkomandi.

Samkvæmt fréttum franskra fjölmiðla er Hollande með 28-29% fylgi í dag og Sarkozy með 25-26%. Framþjóðandi Þjóðarfylkingarinnar, Marine Le Pen, er í þriðja sæti með 17%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert