Komu í veg fyrir sprengjutilræði

Bandarísk yfirvöld hafa komið í veg fyrir tilraun al-Qaeda-hryðjuverkasamtakanna í Jemen til að sprengja flugvél í loft upp. Búið er að leggja hald á sprengjubúnaðinn, sem er svokölluð nærfatasprengja.

AFP-fréttastofan hefur eftir ónefndum embættismanni að sjálfsvígssprengjumaður hafi ætlað að sprengja sig í loft upp í flugvél.

Bandarískir leyniþjónustumenn unnu náið með erlendum starfsbræðrum sínum við rannsókn málsins og uppgötvaðist sprengjutilræðið snemma. Embættismaðurinn segir að ekkert flugfélag hafi verið í hættu.

Fram kemur á vef BBC að hvorki hafi verið búið að ákveða sérstakt skotmark né kaupa neina flugmiða.

Tilrauninni svipar til sprengjutilræðis sem mistókst á jóladag árið 2009. Þá reyndi sjálfsvígssprengjumaður, sem tengist al-Qaeda á Arabíuskaga, að sprengja bandaríska farþegaflugvél í loft upp. Sprengjubúnaðurinn sem lagt hefur verið hald á hafði verið uppfærður. 

Fram kemur í fjölmiðlum að um svokallaða nærfatasprengju sé að ræða. Hún er smíðuð úr efnum sem greinast ekki í málmleitartækjum. 

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, var upplýstur um málið í apríl sl. og fékk að vita að enginn hafi verið í lífshættu.

Caitling Hayden, talsmaður þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna, segir að Obama hafi fyrirskipað heimavarnarráðuneytinu, leyniþjónustu-  og löggæslustofnunum að grípa til nauðsynlegra úrræða til að koma í veg fyrir að slíkar árásir verði gerðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert