Fréttaskýring: Hver er nýja forsetafrúin?

Valerie Trierweiler þótti afar „forsetafrúarleg“ í svörtum kjól, hvítum jakka og háum hælum er hún var við embættistöku unnusta síns, Francois Hollandes, nýkjörins Frakklandsforseta, í forsetahöllinni í París í morgun.

En hver er nýja forsetafrúin? Að þessu spyrja margir Frakkar sig. 

Ekkert „viðhengi“

Fyrirrennari hennar, Carla Bruni, er fyrrverandi ofurfyrirsæta og söngkona. Trierweiler er 47 ára gömul og hefur átt farsælan feril sem stjórnmálablaðamaður hjá Paris Match. Þau Hollande eru ekki gift, þannig að hún ákveður í rauninni sjálf hvort og hvernig hlutverki hennar verður háttað. Hún er þó talin vilja láta til sín taka með einhverjum hætti og hefur lýst því yfir að hún hyggist ekki verða „viðhengi“ forsetans á opinberum vettvangi. 

Hún er til dæmis farin að taka til í hópnum í kringum Hollande, en í veislu sem haldin var nýlega  til að fagna kjöri hans gerði hún einn helsta ráðgjafa hans, Julien Dray, brottrækan, en hann er sagður hafa orðið Hollande til skammar í kosningabaráttunni með því að bjóða Dominique Strauss-Kahn, fyrrverandi framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, til veislu.

Strauss-Kahn hefur verið kærður fyrir aðild sína að vændishring. „Já, ég rak mann úr veislunni og það var Julien Dray,“ sagði Trierweiler þegar blaðamaður Le Figaro spurði hana um þetta atvik.

„Hið þokkafulla trompspil“

Sarkozy var fyrsti forseti Frakklands til að skilja og giftast að nýju í embætti, en Hollande er sá fyrsti til að taka við embætti með unnustu sína sér við hlið. Svo gæti farið að diplómatískur vandi skapaðist vegna þessa, fari Trierweiler með honum í opinberar ferðir til íhaldssamari landa.

Trierweiler var einn helsti ráðgjafi Hollandes í kosningabaráttunni, hún tók sér frí frá störfum á meðan á henni stóð, en hyggst nú snúa til baka. Samband hennar við vinnuveitendur sína hjá fréttatímaritinu Paris Match er þó nokkuð stirt eftir að hún birtist á forsíðu blaðsins undir fyrirsögninni „Hið þokkafulla trompspil“.

Ekki þykir við hæfi að hún fjalli um innlend stjórnmál, eins og hún hefur hingað til gert, því það gæti orsakað ýmsan ágreining og hagsmunaárekstra. Hún hefur lýst því yfir að hún hafi hug á að taka viðtöl við erlend fyrirmenni.

Afbragðsnámsmaður

Fátt benti til þess á æskuárum Trierweiler að hún myndi verða heimagangur í frönsku forsetahöllinni á fullorðinsárum. Hún er af millistétt, foreldrar hennar voru tekjulitlir og móðir hennar vann fyrir heimilinu með því að selja miða í skautahöll. Faðir hennar var öryrki eftir að hann slasaðist í námasprengingu.

Hún var afbragðsnámsmaður, lagði stund á stjórnmálafræði við Sorbonne-háskóla og fékk starf á Paris Match eftir útskrift.

Valerie Trierweiler á þrjú börn með fyrrverandi sambýlismanni sínum og samstarfsmanni, Denis Trierweiler.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert