Skaut bíógest vegna deilna um poppkorn

Zikovs skaut Egle, sem var óvopnaður, þrisvar sinnum. Með Egle …
Zikovs skaut Egle, sem var óvopnaður, þrisvar sinnum. Með Egle í för var ung dóttir hans. AFP

Héraðsdómstóll í Lettlandi hefur dæmt mann í 17 ára fangelsi fyrir að hafa skotið mann til bana í kvikmyndahúsi.

Lögfræðingurinn Nikolajs Zikovs skaut bankastarfsmanninn Aigars Egle til bana í kjölfar rifrildis, en Zikovs þótti Egle hafa of hátt þegar hann var að borða poppkorn.

Atvikið átti sér stað í höfuðborginni Riga í febrúar í fyrra. Með Egle í för var ung dóttir hans.

Zikovs, sem er 29 ára gamall, hélt því fram við réttarhöldin að hann hefði gert þetta í sjálfsvörn. Hann skaut Egle, sem var óvopnaður, þrisvar sinnum.

Sjónarvottar segja að Zikovs hafi sjálfur truflað aðra kvikmyndahúsagesti á meðan myndin var enn í gangi. Þegar myndin var búin fór Zikovs að skammast í Egle fyrir að hafa of hátt þegar hann var að gæða sér á poppkorni.

Zikovs, sem er með byssuleyfi, segist vera sanngjarn maður en hann er þeirrar skoðunar að Egle hafi átt að vera kurteisari við sig.

Egle, sem var 43 ára gamall fjögurra barna faðir, var yfirmaður hjá Citadele ríkisbankans í Lettlandi.

Málið hefur vakið mikla athygli í landinu og óhug. Í augum almennings er Zikovs bæði hrokafullur og tilfinningalaus og heltekinn af skotvopnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert