Grikkir í facebookstríði við Lagarde

Grikkir eru Christine Lagarde, framkvæmdastjóra AGS, sárreiðir vegna ummæla hennar …
Grikkir eru Christine Lagarde, framkvæmdastjóra AGS, sárreiðir vegna ummæla hennar um skuldavanda Grikklands. AFP

Grikkir eru Christine Lagarde, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ævareiðir vegna ummæla hennar um að hún velti því fyrir sér hvers vegna þeir væru svo fúsir til að leita allra leiða til að komast hjá því að greiða skatta. Grískur almenningur hefur herjað á Lagarde á samskiptasíðunni Facebook í dag og skrifað meira en 10.000 skilaboð á síðu hennar, margir voru býsna orðljótir.

Þessu til viðbótar var stofnuð facebooksíða undir heitinu „Grikkir á móti Lagarde“ og segir þar að tilgangur síðunnar sé sá að þar geti fólk lýst yfir andúð sinni á henni.

Lagarde lét ummælin falla í viðtali við Lundúnablaðið The Guardian.

Grískum almenningi finnst hún hafa gert lítið úr þeim erfiðleikum sem þeir ganga nú í gegnum. Sérstaklega svíða þeim ummæli hennar um að Grikkir verði að hjálpa sér sjálfir með því að greiða skatta. Hún sagðist hafa meiri áhyggjur af blásnauðum Afríkubúum en Grikkjum.

„Þetta ættir þú að segja augliti til auglitis við aðstandendur þeirra 3.000 Grikkja sem hafa svipt sig lífi vegna efnahagsástandsins,“ skrifaði ævareiður Grikki á facebooksíðuna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert