900 tonn af hvalkjöti ónýt

9 tonn af japönsku hvalkjöti liggja nú undir skemmdum vegna …
9 tonn af japönsku hvalkjöti liggja nú undir skemmdum vegna hræðslu matvælaframleiðenda við andstæðinga hvalveiða. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Þrír fjórðu hlutar hvalkjöts sem fékkst úr umdeildum veiðum Japana á síðasta ári, seldust ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að bjóða það upp.

Samkvæmt upplýsingum af fréttavef AFP fréttastofunnar er um að ræða 75% af 1.200 tonna afla, eða um 900 tonn. Ekki fundust kaupendur að kjötinu þrátt fyrir mikla leit. Á hinn bóginn er enn eftirspurn eftir hvalkjöti frá japönskum strandveiðimönnum, en það kjöt er selt ferskt á meðan aflinn úr stórveiðinni í fyrra var frystur og seldur frosinn í stærri skömmtum. 

Uppboð á kjötinu voru haldin reglulega milli nóvember á síðasta ári fram til mars í ár án árangurs. Kjötið var veitt í Norðvestur-Kyrrahafi og voru vonir bundnar við að veiðin myndi auka vinsældir og neyslu á hrefnukjöti ásamt því að auka ríkistekjur. 

Talsmaður japanska hvalveiðisambandsins hefur lýst yfir vonbrigðum með afrakstur framtaksins, og skellir skuldinni á matvælaframleiðendur og verslanir. Að hans sögn er hræðsla við andstæðinga hvalveiða ástæða þess að matvælaverslanir halda að sér höndum þegar kemur að verslun með hvalkjöt. 

Haft er eftir talsmanninum að nauðsynlegt sé fyrir Japani að finna nýjar leiðir til að markaðssetja hvalkjöt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert