Atvinnuleysi aldrei meira á evrusvæðinu

Biðröð á atvinnuskrifstofu á Spáni.
Biðröð á atvinnuskrifstofu á Spáni. MIGUEL VIDAL

Samkvæmt opinberum tölum sem birtust fyrir helgi var atvinnuleysi á evrusvæðinu 11,1% í maí. Hefur atvinnuleysi aldrei mælst hærra á svæðinu. Spánn varð verst úti, en atvinnuleysið þar mældist 24,6%.

17,5 milljón manna voru atvinnulausar á sameiginlega myntsvæðinu í maí-mánuði og bættust 88.000 manns við hóp atvinnulausra. Þetta kom fram í gögnum frá Eurostat sem birtar voru á föstudaginn. Nú hefur atvinnuleysi mælst yfir 10% í 13 mánuði í röð, á sama tíma og evrusvæðið hefur glímt við skuldavanda einstakra ríkja innan bandalagsins.

Þegar horft er til Evrópusambandsins í heild reyndist atvinnuleysi vera 10,3% og hafði hækkað lítillega frá því í apríl. Tæpar 25 milljónir manna eru nú atvinnulausar í ESB, og fjölgaði þeim um 151.000 manns í maí.

Spánn hlaut þann vafasama heiður að vera í efsta sæti, en atvinnuleysi þar mældist 24,6%. Þar af er einn af hverjum tveimur undir 25 ára aldri án atvinnu. Grikkland var í öðru sæti, en þar var 21,9% atvinnuleysi. Lettland mældist með 15,3% og Portúgal með 15,2%. Lægst var atvinnuleysið í Austurríki, 4,1%. Holland er með 5,1% atvinnuleysi, Lúxemborg 5,4% og Þýskaland 5,6%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert