Gyðingar ósáttir við fatabúðina Hitler

Hátt settur ísraelskur embættismaður segir að ný verslun sem selur karlmannafatnað á Indlandi hafi sært tilfinningar gyðinga um allan heim. Verslunin heitir Hitler og er hakakross í merki hennar.

Orna Sagiv, sem er alræðismaður Ísraels í Mumbai á Indlandi, kveðst vera yfir sig hneyksluð á þessari tillitslausu nafngift. Sagiv hyggst ræða málið við yfirvöld í Gujarat-ríki í næstu viku.

„Ég tel ekki að þeir hafi nefnt búðina þessu nafni í illgirni. Ég tel einfaldlega að þetta byggist á fáfræði og tillitsleysi,“ segir hún.

Versluninvar  opnuðfyrir 10 dögum í borginni Ahmedabad í Gujarat. Rajesh Shaj, eigandi hennar, segist ekki vita hver Adolf Hitler var. Verslunin hafi verið nefnd í höfuðið á viðskiptafélaga afa síns. Hann var kallaður Hitler því hann var svo strangur.

„Ég gerði mér ekki grein fyrir því að þetta myndi særa fólk,“ sagði hann í samtali við AFP-fréttaveituna.

„Það var ekki fyrr en ég var búinn að opna verslunina að ég komst að raun um að Hitler hefði drepið sex milljónir manna,“ bætti hann við.

Hann kveðst vera reiðubúinn að breyta nafni verslunarinnar fái hann bætur vegna útlagðs kostnaðar. Hann segist vera búinn að greiða sem samsvarar um 330.000 kr. fyrir auglýsingaskilti, merki verslunarinnar og nafnspjöld.

Fram kemur á vef BBC að fámennur hópur Indverja, sem fari stækkandi, dáist mikið að Hitler, sem var leiðtogi þýskra nasista á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar. Þetta er aðallega ungt fólk.

Þá segir að víða sé hægt kaupa minjagripi sem tengjast Hitler og nasistum, t.d. bækur um ævi nasistaleiðtogans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert