Transfólk flykkist að Obama

Amy, Jamie, Janice, Meghan og Melissa ferðuðust þvert yfir Bandaríkin til að sýna Barack Obama stuðning sinn í verki. Þær þakka það forsetanum að líf þeirra sem transkonur hafi batnað. Aldrei hefur fleira transfólk sótt flokksþing demókrata, en Obama bannaði mismunun transfólks á kjörtímabilinu.

„Árið 2004 vorum við 6, árið 2008 vorum við 8 og í dag erum við 13,“ sagði Melissa Sklarz við blaðamann AFP á flokksþinginu í Charlotte í Norður-Karólínu í dag. Transkonurnar eru fulltrúar eins af mörgum minnihlutahópum sem styðja forsetann vegna þess hvernig hann hefur beitt sér fyrir jafnrétti. 

Fá hvergi vinnu

Obama hefur þótt framsækinn í málefnum transfólks, m.a. með því að skipa í fyrsta skipti transkonu, Amöndu Simpson, í embætti á vegum ríkisstjórnarinnar. Þá lögfesti forsetinn bann við mismunun gegn transfólki á vinnustað.

„Atvinnuleysi er eitt stærsta vandamál transfólks,“ segir hinn 49 ára gamli Kylar Broadus, sem hefur látið leiðrétta kyn sitt. „Það er gríðarleg fátækt í samfélagi transfólks. Flest okkar eru fullfær til vinnu, en fáum engin störf.“

Jafnréttisbarátta transfólks mun skemur komin en samkynhneigðra Bandaríkjamanna. Barátta þeirra snýst enn fyrst og fremst um það að komast af, en Jamie Shiner transkona segir að Obama hafi komið mun meiru til leiðar fyrir þennan hóp en nokkur annar forseti.

Fulltrúar LGBT fólks, þ.e. samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender, óttast að komist Repúblikanaflokkurinn aftur yfir forsetastólinn verði bakslag í réttindabaráttu þeirra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert