Sænskum blaðamönnum jafnvel sleppt

Johan Person og Martin Schibbye.
Johan Person og Martin Schibbye.

Vonir standa til þess að sænsku blaðamönnunum tveimur sem handteknir voru í Ogaden-héraði í Eþíópíu fyrir rúmu ári verði sleppt úr fangelsi á þriðjudag, nýársdegi í Eþíópíu.

Martin Schibbye og Johan Persson voru í desember dæmdir í ellefu ára fangelsi í Addis Ababa fyrir að hafa stutt við hryðjuverkastarfsemi og að hafa komið ólöglega inn í landið.

Svenska Dagbladet hefur í dag eftir norska prófessornum Kjetil Tronvoll, sem er sérfræðingur í mannréttindamálum og málefnum Eþíópíu, að algengt sé að föngum sé sleppt á þeim degi í landinu.

Sendiherra Svíþjóðar í Eþíópíu, Jens Odlaner, vill hins vegar ekki tjá sig um málið að svo stöddu í samtali við fréttastofuna TT.

Þeir Schibbye og Persson komu til Eþíópíu frá Sómalíu í fylgd skæruliða Þjóðfrelsishreyfingar Ogaden. Voru þeir teknir höndum af hernum hinn 30. júní. Degi síðar voru þeir handteknir af lögreglu og síðar ákærðir fyrir að styðja hryðjuverk og að koma ólöglega inn í landið. Þeir ætluðu að rannsaka starfsemi félags sem tengist sænska olíufélaginu Lundin Petrolium í Ogaden og mannréttindabrot Eþíópíuhers í héraðinu til að verja hagsmuni erlendra olíufyrirtækja.

DN.se

Svd.se

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert