Með 16 tígrisdýrshvolpa í bílnum

Lögregla í Taílandi handtók í gær mann sem var með 16 tígrisdýrshvolpa í bílnum sínum. Hvolparnir eru sex vikna til tveggja mánaða gamlir.

Maðurinn, sem er 52 ára gamall, var handtekinn skammt frá landamærunum við Laos. Hann var var á pallbíl, en aftur í honum voru 16 tígrisdýrshvolpar í búrum.

Maðurinn sagði við yfirheyrslur að hann hefði fengið greiddar um 60 þúsund krónur fyrir að aka með dýrin frá Bangkok yfir landamærin til Laos. Hann sagðist ekki vita hver ætti dýrin. Samskiptin við eigandann hefðu átt sér stað í síma og hann hefði ekki gefið upp nafn. Ökumaður bílsins verður ákærður.

Ekki er talið að hvolparnir hafi verið fangaðir í náttúrunni heldur séu komnir frá tígrisdýrum í búrum.

Tígrisdýr eru í útrýmingarhættu. Talið er að fyrir 100 árum hafi um 100 þúsund tígrisdýr verið til í heiminum en séu núna um 3.200. Tígrisdýr búa í náttúrulegu umhverfi í 13 löndum heims. Taíland er eitt þeirra.

Viðskipti með dýr í útrýmingarhættu eru bönnuð samkvæmt alþjóðlegum samningum. Í Taílandi þrífst hins vegar umsvifamikill markaður fyrir sjaldgæf dýr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert