Danir stöðva þróunaraðstoð við Úganda

Haldið var upp á það í byrjun október, að 50 …
Haldið var upp á það í byrjun október, að 50 ár voru liðin frá því Úganda lýsti yfir sjálfstæði frá breskum yfirráðum. mbl.is/afp

Danska ríkisstjórnin ákvað í dag að fresta ótímabundið allri fjárhagslegri aðstoð  við ríkisstjórn Úganda eftir að endurskoðun leiddi í ljós, að misfarið hafi verið með 10 milljónir evrur af erlendri aðstoð.

„Við lítum málið grafalvarlegum augum og höfum stöðvað allar greiðslur til ríkisstjórnar Úganda,“ sagði Christian Friis Bach þróunarmálaráðherra við fréttastofuna AFP.

Það var ríkisendurskoðun Úganda sem leiddi í ljós, að milljónum evra hafði verið streymt úr ríkissjóði inn á einkareikninga sem tengjast starfsfólki skrifstofu forsætisráðherrans í Kampala. Að sögn Friis Bach hafa um 10 milljónir evra horfið með þessum hætti.

Greiðslurnar voru vegna þróunar- og uppbyggingarstarfs á fyrrverandi átakasvæðum í norðurhluta Úganda. Meðal ríkja sem tóku þátt í aðstoðinni auk Danmerkur eru Írland, Noregur, Svíþjóð og Danmörk.  

Svíar hættu greiðslum vegna þessa fyrir viku og Írar sl. sunnudag. Friis Bach segir Dani muni halda áfram stuðningi við uppbyggingarstarfið í Úganda en einungis gegnum  samtök og stofnanir sem óháð eru stjórnvöldum þar í landi.

Amama Mbabazi forsætisráðherra Úganda kveðst ekkert kannast við mál þessi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert