Var með 5,7 prómill í blóðinu

Áfengismagn í blóði tæplega fimmtugs karlmanns, sem í nótt var fluttur á sjúkrahúsið í Kolding í Danmörku, mældist 5,7 prómill af áfengi í blóðinu að því er kemur fram á vef Jyllands-Posten.

Eftir að maðurinn hafði fengið læknishjálp yfirgaf hann sjúkrahúsið og fór beinustu leið út í næstu verslun og keypti þar þrjár vodkaflöskur. Hann drakk síðan eina flöskuna í félagi við vin sinn. Eftir þá drykkju fór manninn að svima og hann var því fluttur á ný á sjúkrahúsið. Þar tóku læknar ákvörðun um neyðarinnlögn í óákveðinn tíma.

„Maðurinn var svo drukkinn að það var óábyrgt frá heilbrigðissjónarhóli að leyfa honum að fara. Þannig að í samstarfi við sjúkrahúsið var gefið út heilbrigðisvottorð sem gerir okkur kleift að halda honum hérna aðeins lengur,“ er haft eftir Martin Rasmussen, fulltrúa lögreglunnar á Austur-Jótlandi. Rasmussen bætti við að venjulegir menn hefðu varla lifað þetta af.

Aðspurður sagðist Rasmussen ekki treysta sér til þess að giska á hversu mikið áfengismagn hefði verið í blóði mannsins eftir að hann hafði drukkið síðustu vodkaflöskuna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert