Danir deila um trúarhátíðir

Ekkert jólatré verður sett upp í umræddu hverfi í Kokkedal.
Ekkert jólatré verður sett upp í umræddu hverfi í Kokkedal. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Óánægjubylgja hefur riðið yfir Danmörku eftir að meirihluti hverfisráðs í Kokkedal samþykkti að sleppa jólaskreytingum og -skemmtunum í ár. Stutt er hins vegar síðan haldin voru kostnaðarsöm hátíðarhöld í hverfinu vegna trúarhátíðar múslíma.

Fimm fulltrúar af níu í hverfisráðinu samþykktu að hefðbundin jólagleði skyldi undanskilin þetta árið. Meirihluti fulltrúa í ráðinu eru múslímar. Málið hefur fengið töluverða umfjöllun í dönskum fjölmiðlum og vakið mikið mikla reiði meðal Dana. 

Meðal annars hefur þessi reiði komið fram í ummælakerfum dagblaða. „Þetta er enn eitt dæmið um tilraunir innflytjenda til að sneiða af hefðir okkar og venjur og endar ábyggilega með því að ekkert verður eftir,“ sagði Mogens Justesen í ummælakerfi Jyllands-Posten.

Þá er á það bent að kostnaðurinn við Eid-hátíðina, sem er trúarhátíð múslima, hafi numið 60 þúsund dönskum krónum, jafnvirði 1,3 milljóna íslenskra króna, en kostnaður við jólaskreytingar og -skemmtunina var áætlaður sjö þúsund danskar krónur, eða rúmar 150 þúsund krónur.

Annar lesandi Jyllands-Posten, Kristoffer Damgaard, sagði að múslímarnir í hverfisráðinu skilji greinilega ekki að lýðræði gangi ekki út á að afnema réttindi minnihlutans.

Einhverjir hafa gengið svo langt að mælast til þess að sett verði lög til að vernda jólahátíðina fyrir áhrifum innflytjenda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert