Mengunarslys í Finnlandi

Frá Kivijaervi-vatni í Finnlandi.
Frá Kivijaervi-vatni í Finnlandi.

Nikkel í hættulegu magni fannst í finnsku stöðuvatni eftir að úrgangsvatn lak úr námu í nágrenninu. Úraníum hefur einnig mælst í vatninu.

Mælingar sýna að í vatninu Kivijaervi sé nikkel í magni sem gæti reynst hættulegt lífverum, segir í yfirlýsingu Umhverfisstofnunar Finnlands.

Frá því að úrgangsvatn fór að leka úr tjörn við nikkelnámu sem er um 500 kílómetrum norður af höfuðborginni Helsinki, hafa 900 kíló af nikkel lekið í átt að stöðuvatninu sem er sunnan við námuna. Önnur 220 kíló láku í norðurátt frá tjörninni.

Einnig hækkaði magn úraníums í vatninu en Umhverfisstofnun Finnlands telur að það eigi ekki eftir að hafa áhrif á lífríki vatnsins.

Eigandi námunnar, fyrirtækið Talvivaara, hefur hætt framleiðslu og hefur með aðstoð finnska hersins reist stíflur umhverfis svæðið til að reyna að halda umhverfisáhrifunum í lágmarki. Þá er einnig unnið að því að stöðva lekann.

Talsmaður fyrirtækisins segir enn ekki ljóst hvaðan lekinn kemur.

Finnska lögreglan hefur hafið rannsókn á málinu.

Á fyrstu níu mánuðum ársins voru framleidd 10.598 tonn af nikkel í námunni og 21.760 tonn af sinki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert