Lét jólasveininn drepa í

Jólasveinninn áður en hann hætti að reykja og safnaði skeggi.
Jólasveinninn áður en hann hætti að reykja og safnaði skeggi. mbl.is

Jólasveinninn er hættur að reykja í nýrri bók með ljóði Clement C. Moore „Twas the night before christmas,“ í breyttri útgáfu. Þykir mörgum sem um hálfgerð helgispjöll sé að ræða þar sem ljóðið skipar sérstakan sess í bandarískri menningu.

Kanadíska konan Pamela McColl veðsetti hús sitt til þess að gefa út ljóðið í nýrri útgáfu. Hefur hún tekið út erindi sem lýsir því m.a. hvernig jólasveinninn reykir pípu þegar hann stígur af sleða sínum við hús eitt. Í nýju útgáfunni lýsir sveinki þess í stað því yfir að hann sé hættur þessum ósið.

Málið hefur vakið mikla athygli og hafa Samtök bandarískra bókasafna og American Academy of Pedistics gagnrýnt þessar breytingar á ljóðinu harðlega.

„Það standa yfir miklar deilur,“ segir McColl. „Ég hef verið kölluð alls kyns illum nöfnum,“ segir hún.

Ástæða útgáfunnar segir McColl vera þá að reykingar séu hættulegar og að hún hafi eitt sinn þurft að draga föður sinn af heimili þeirra eftir að hann hafði óvart kveikt í rúmi sínu með glóði sígarettu.

Hún segir tilganginn hafa verið að verja börn fyrir óæskilegum áhrifum.

„Fyrir börnum er Jólasveinninn ekki uppspuni,“ segir Mc Coll. „Hann er raunveruleg manneskja sem klifrar niður strompinn, og hann reykir. Það er það sem fer í gegnum huga 3 ára barns,“ segir McColl.

Ljóðið birtist fyrst í dagblaðinu Troy í New York árið 1823 og hefur sérstakan sess í hugum Bandaríkjamanna. Almennt er Clement C. Moore talinn höfundurinn þó sumir sagnfræðingar haldi því fram að maður að nafni Henry Livingston Jr. eigi heiðurinn af því.

Bókin hefur þegar selst í 15 þúsund eintökum og hafa samtök sem berjast gegn tóbaki lýst yfir ánægju sinni með breytingarnar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert